Fræðafélag um íslenskan handverksarf hefur verið stofnað

Þann 22. október var haldinn framhalds stofnfundur og Fræðafélag um íslenskan handverksarf stofnað formlega.  Samþykktir þess voru lagðar fyrir aðalfund og samþykktar.  Í stjórn félagsins sitja Elín Jóna Traustadóttir, formaður, Ásdís Björgvinsdóttir, gjaldkeri, Katrín Guðbjartsdóttir, ritari, Birkir Örvarsson og Guðrún Hildur Rosenkjær meðstjórnedur.

Aðal markmið félagsins er að stofna Fræðasetur um íslenska búninga, skart og handverk.  Til að byrja með mun áherslan vera lögð á gerð heimasíðunnar www.thjodbuningur.is þar sem verður hægt að finna ýmsan fróðleik og upplýsingar um íslenska búninga og skart og handverk því tengdu.   Einnig verður unnið að því að stofna fræðasetur samhliða fyrirtækinu Annríki sem er í eigu Guðrúnar Hildar klæðskera og Ásmundar Kristjánssonar gullsmiðs.  Mikil þekking er til staðar hjá þeim hjónum og er eitt af meginmarkmiðum félagsins að miðla þeirri þekkingu til landsmanna.

Það er gleðilegt að slíkt félag skuli nú hafa litið dagsins ljós.  Það hefur sýnt sig að áhugi á íslenska búninginum fer vaxandi og mikil eftirspurn er eftir því að fara á námskeið t.d. til að sauma búninga.  Það er stefna félagsins að auka fræðslu og þekkingu á íslenska búninginum og handverki honum tengdum.